VERÐLAUNASÆTI Á NORÐURLANDAMÓTINU

Skáksveit Rimaskóla náði 3. sæti og verðlaunasæti á Norðurlandamóti barnaskólasveita í Helsinki í Finnlandi helgina 12. - 14. sept. sl. Verðlaunin voru kærkomin enda fyrirfram stefnt á þann árangur.
Norski Slemdal skólinn hafði nokkra yfirburði á mótinu en skólarnir 2. - 5. sæti börðust hart um hin tvö verðlaunasætin.
Í skáksveit Rimaskóla á mótinu voru þau Tristan Fannar Jónsson, Emilía Embla B. Berglindardóttir, Sigrún Tara Ingadóttir, Emilía Sigurðardóttir og Tara Líf Ingadóttir. Þjálfari krakkanna er Björn Ívar Karlsson, skákkennari Rimaskóla. Ferðin til Finnlands reyndist virkilega skemmtileg og vel heppnuð. " Þetta gekk alveg glimrandi vel og krakkarnir komu vel undirbúin til leiks,sýndu baráttu og þolinmæði, yfirvegaða taflmennsku og vandaða tækni" segir Helgi Árnason fararstjóri skáksveitar Rimaskóla. Teflt var í húsnæði finnska skáksambandsins og gist á glænýju Hóteli Sokos - Tripla sem er hluti af einu stærsta verslunar-og veitingastaða-molli á Norðurlöndum.
Þetta er í 17. skipti sem Rimaskóli vinnur sér inn þátttöku á Norðurlandamóti grunn-og barnaskólasveita. Skólinn hefur í sex skipti unnið sigur, tvívegis endað í öðru sæti og 5 sinnum náð bronsverðlaunum.
Skóla-og frístundasvið Reykjavíkurborgar veitti skáksveitinni góðan styrk til þátttöku auk þess sem Rimaskóli og fleiri styrktaraðilar komu að kostnaði við ferðina. Til hamingju skáksnillingar Rimaskóla.

